Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum hækkuðu í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar brugðust fjárfestar vel við niðurskurðaraðgerðum ýmissa fyrirtækja sem munu segja upp starfsfólki og skera niður rekstrarkostnað.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 0,8%, Dow Jones um 0,5% og S&P 500 um 0,6%.

Byggingavörurisinn Home Depot hækkaði um 4,7% eftir að félagið tilkynnti í dag að til stæði að segja upp allt að 7 þúsund manns vegna minnkandi umsvifa.

Þá tilkynnti vinnuvélaframleiðandinn Caterpillar um uppsagnir 20 þúsund starfsmanna, símafyrirtækið Sprint segja upp um 8 þúsund manns en alls var tilkynnt um uppsagnir 74 þúsund starfsmanna í dag úr ýmsum geirum.

„Uppsagnir eru sársaukafullar en þær eru engu að síður hluti af endurskipulagningu fyrirtækja og þetta er oft spurning um hvort fyrirtækin fari í gegnum storminn eða ekki,“ hefur Bloomberg eftir viðmælanda sínum.

„Markaðurinn er einfaldlega að leita jafnvægis og því miður þarf að grípa til þessara aðgerða.“

Hlutabréfamarkaðir hækkuðu strax í morgun þegar nýjar tölur bárust um aukna sölu notaðra heimila sem hefur hækkað óvænt um 6,5%.

Verð á hráolíu lækkaði lítillega í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 45,73 Bandaríkjadali og hafði lækkað um 1,6% frá opnum markaða.