Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna kynnti í dag áform um að kaupa allt að 1000 milljarða dala af eitruðum eignum út úr efnahagsreikningi banka. Við fréttirnar rauk verð á hlutabréfum upp og Dow Jones vísitalan hækkaði um 6,8%, sem er fimmta mesta stökk í sögu þessarar gömlu vísitölu. Nasdaq hækkaði um sömu hlutfallstölu og S&P 500 um 7,1%.

Fjármálageirinn leiddi hækkanir með 16% stökki. J.P. Morgan Chase hækkaði um 25%, Bank of America um 26%, Citigroup um 20% og American Express um 19%. Þá hækkaði Alcoa um 13% og General Electric um 9,3%, að því er segir í frétt WSJ.

1000 milljarðar af eitruðum eignum

Áform fjármálaráðuneytisins ganga út á samvinnu hins opinbera og einkageirans um að kaupa allt að 1000 milljarða dala af illseljanlegum eignum sem tengjast fasteignamarkaðnum, að því er segir í frétt Bloomberg. Til þess mun fjármálaráðuneytið nota allt að 100 milljarða dala úr björgunarsjóði bankanna en einnig er gert ráð fyrir að seðlabankinn og innstæðutryggingasjóðurinn komi að verkinu. Vonir standa til að með því að losa bankana við þessar eignir geti þeir hafið lánveitingar á nýjan leik og komið hjólum atvinnulífsins aftur af stað.