Atvinnulausum í Bandaríkjunum fjölgaði um 651.000 manns í febrúarmánuði samkvæmt opinberum tölum og nemur atvinnuleysið þar í landi nú 8,1%. Þetta eru hærri tölur en áætlað hafði verið.

Endurskoðaðar tölur sýna að 655.000 manns misstu atvinnu sína í janúarmánuði þar í landi og 681.000 manns í desember. Talan í desember er sú hæsta í einum mánuði síðan árið 1949 og hlutfall atvinnulausra hið hæsta síðan í desember 1983.

Þetta kemur fram á vef BBC. Þar segir ennfremur að nú séu 12,5 milljónir manna án atvinnu í Bandaríkjunum.

Í desembermánuði skiptist atvinnuleysið þannig milli greina að 168.000 störf voru lögð niður í framleiðsluiðnaði, 104.000 störf í byggingariðnaði og 375.000 störf í þjónustugreinum. Aðeins í opinbera geiranum fjölgaði störfum.