Bandarískar fjármálastofnanir sem þegið hafa neyðarlán frá yfirvöldum gera ráð fyrir að endurgreiða allt að 25 milljarða Bandaríkjadali á næstu 12 mánuðum.

Þetta kom fram í máli Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna þegar hann bar vitni fyrir viðskiptanefnd Bandaríkjaþings. Geithner sagði jafnframt að ef á þyrfti að halda yrði fjármagnið (sem fengist með endurgreiðslunum) nýtt til að styðja frekar við bakið á bönkum og fjármálafyrirtækjum. Hann taldi þó þörfina á því fara dvínandi.

Nú eru tæpir 124 milljarða dala eftir af 700 milljarða dala björgunarsjóðnum sem settur var á laggirnar í byrjun árs. Þannig er líklegt að bandarísk yfirvöld hafi tæpa 150 milljarða dali á milli handanna á næstu 12 mánuðum til að nýta í frekari björgunaraðgerðir, án þess að fá samþykki þingsins fyrir þeim útgjöldum.

Geithner lagði áherslu á að batahorfur væru á fjármálamörkuðum og því taldi hann ólíklegt að ríkið þyrfti að auka umsvif sín þar. Hann sagði hins vegar að yfirvöld myndu halda vakandi auga yfir bílaiðnaðinum en hluti björgunarsjóðsins var notaður til að koma stærstu bílaframleiðendum landsins til hjálpar fyrr á árinu. Nú, þegar allt stefnir í gjaldþrot General Motors (GM), gerir Geithner ráð fyrir að yfirvöld muni að öllum líkindum þurfa að leggja út eitthver fjármagn í mögulegt þrotabú félagsins til að viðhalda verðmætum. Hann tók þó skýrt fram að ekki væri gert ráð fyrir gjaldþroti GM en ríkisstjórnin myndi engu að síður fylgjast með málinu.