Hlutabréf lækkuðu í Bandaríkjunum í dag en þó ekki jafn mikið eins og leit út í fyrstu.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 3,2%, Dow Jones um 3,6% og S&P 500 um 3,5%.

Við opnun markaða í dag lækkuðu allar vísitölurnar í kringum 5%.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Eftir mikið hrap hlutabréfamarkaða í Asíu í morgun og eldrauða opnun í Evrópu, sem hvoru tveggja má rekja til ótta fjárfesta við frekari vandræði á mörkuðum var útlitið ekki bjart þegar markaðir opnuðu á Wall Street klukkan 13:30 að íslenskum tíma.

Reuters fréttastofan greinir frá því að fyrir opnun var um tíma lokað fyrir utanþingsviðskipti með hlutabréf þar sem talin var hætta á að hrapið yrði það mikið á mörkuðum vestanhafs.

Nú þegar vikan er á enda hefur Nasdaq lækkað um 6,8%, Dow Jones um 5,4% og S&P 500 um 9,3%.