Bandaríski seðlabankinn mun í kvöld tilkynna um stýrivaxtaákvörðun sýna en búist er við því að stýrivextir, sem nú eru 1%, lækki um 50 til 75 punkta og verði þannig 0,5% eða 0,25%.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar búast bjartsýnustu menn 100 punkta lækkun þannig að stýrivextir verði 0%.

Ekki eru þó allir sammála um ágæti þess að lækka stýrivexti svo mikið. Viðmælandi Bloomberg segir hættu á því að offramboð verði af peningum í umferð, sérstaklega í ljósi 700 milljarða dala björgunarpakkans sem bandaríkjaþing samþykkti nýlega til handa banka- og fjármálakerfi landsins.

Ákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna verður kynnt um kvöldmatarleytið að íslenskum tíma.