George W. Bush, bandaríkjaforseti, reyndi í gær að hughreysta bandarískar fjölskyldur vegna greiðsluerfiðleika lána en talaði á sama tíma um styrk bandarísks efnahagslífs.

„Sum ykkar eigið í erfiðleikum með að borga reikninga og mánaðarlegar greiðslur á húsnæðislánum um þessar mundir," sagði Bush í vikulegu útvarpsávarpi frá heimili sínu í Texas. „Aðrir hafa áhyggur af hækkandi orkukostnaði á bæði heimilum og eins bensínkostnaði. Fólk hefur gert ráð fyrir því að kjörnir fulltrúar í Washington taki á þessum málum." Þetta kom fram hjá Wall Street Journal fréttaveitunni.

Bush sagði að bæði ríkisstjórnin og þingið hefðu nýlega gert ráðstafanir til að mæta bandarískum almenningi í þessum málum. Nýlega hafi verið samþykkt orkulöggjöf og eins hafi skattalögum verið breytt þannig að fólk geti með auðveldari hætti endurfjármagnað húsnæðislán sín.

Hann notaði einnig tækifærið til að gagnrýna þingið fyrir að stuðla að 9.800 gæluverkefnum í nýjum fjárlögum fyrir næsta ár. Bush samþykkti þó lögin rétt fyrir jól en tók fram óánægju sína með aukin útgjöld þingsins. Hann sagði að þingmenn hefðu í síðustu kosningum lofað að taka til í fjármálum hins opinbera, náð nokkrum árangi en þó mætti gera betur.

„Ég lofa því á nýju ári að vinna með þinginu til að halda efnahagslífinu gangandi, halda skattbyrði almennings í lágmarki og reyna að tryggja að það fjármagn sem þið sendið til Washington í gegnum skattgreiðslur sé eytt af skynsemi - og helst ekki eytt," sagði Bush í sínu síðasta útvarpsávarpi ársins.

Hann sagði í ávarpi sínu að tölur og staðreyndir væru mikilvægar fyrir efnahagskerfið en minnti á að á bakvið allt það væri vinnandi fólk sem hefði það að markmiði sínu að halda efnahag landsins gangandi.

Demókratar gagnrýna Bush

Bæði demókratar og repúblikanar hafa augljóslega áhyggur af efnahagsástandi landsins. Mikið hefur verið um það rætt í bandarískum fjölmiðlum síðustu daga og hafa margir þingmenn beggja flokka tjáð sig um aðgerðir hins opinbera.

Forystumenn Demókrataflokksins hafa gagnrýnt Bush fyrir að vera í afneitun varðandi þau vandamál sem herja nú á bandarískt efnahagslíf. Þeir segja Bush mála glansmynd af efnahagslífi á meðan almenningur eigi í erfiðleikum með greiðslubyrði og hækkandi kostnað neysluvara.

Kirsten Gillibrand, fulltrúardeildarþingmaður frá New York sagði í viðtali í gær að demókratar hefðu fært almenningi lausnir á því ári sem þeir hefðu haft forystu í báðum deildum þingsins. „Við höfum sýn sem mun styrkja efnahagslif landsins og styður á bakvið hina vinnandi fjölskyldu. Við höfum lagað skattkerfið fyrir miðstéttarfólk, hækkað lágmarkslaun og lækkað skatta á smáfyrirtæki. Allt þetta mun koma fólki vel í baráttunni við greiðsluerfiðleika og hækkandi kostnað," sagði Gillibrand.