Bill Gates, stofnandi Microsoft, er ríkasti maður Bandaríkjanna samkvæmt lista Forbes yfir ríkustu einstaklingana í Bandaríkjunum. Eignir hans eru metnar á 54 milljarða dala sem svarar um 6.200 milljörðum króna og hafa aukist um 4 milljarða dala síðastliðið árið.

Þessar fregnir koma eflaust fáum á óvart, en Gates hefur verið í efsta sætinu á Forbes listanum yfir ríkustu menn Bandaríkjanna 17 ár í röð.

Gates er jafnframt í öðru sæti á lista yfir ríkustu menn heims sem Forbes birti í vor. Hann var ríkasti maður heims árin 1995 til 2009, utan ársins 2008 þegar hann lenti í þriðja sæti.

Bill Gates er fæddur 1955 og verður 55 ára 28. október næstkomandi.