Bandarísk yfirvöld lokuðu fyrir helgi fimm bönkum, þar af þremur sem voru í eigu Bank of Florida samstæðunnar.

Frá þessu er greint á vef Reuters fréttastofunnar en alls hefur 78 bönkum verið lokað af stjórnvöldum það sem af er þessu ári. Alls var 140 bönkum og fjármálastofnunum lokað af yfirvöldum á síðasta ári.

Hinn bandaríski tryggingasjóður innstæðueigenda sleppur þó við að greiða um 1,5 milljarða Bandaríkjadala til innstæðueigenda hjá, en þessir þrír bankar ráku samanlagt 13 útibú, þar sem EverBank bankinn hefur fengið umboð yfirvalda til að taka yfir rekstur fyrrnefndra banka.

Innstæður í þremur bönkum, Bank of Florida - Southeast; Bank of Florida - Southwest; og Bank of Florida - Tampa Bay nema um 1,5 milljarði Bandaríkjadala samkvæmt upplýsingum bandaríska tryggingasjóðs innstæðueigenda (Federal Deposit Insurance Corp) en bankarnir ráku saman 13 útibú í Flórída. Tryggingasjóðurinn þarf þó ekki að greiða nema tæpar 200 milljónir dala þar sem EverBank bankinn í Flórída hefur fengið umboð yfirvalda til að taka yfir starfsemi fyrrnefndra banka og þ.m.t. innstæður fyrir um 1,3 milljarð dala.

Þá lokuðu yfirvöld einnig Sun West bankanum í Las Vegas en City National Bank í Los Angeles hefur tekið yfir starfsemi hans, m.a. innstæður.

Loks lokuðu yfirvöld Granite Community Bank í Kaliforníu. Tri Counties Bank í Ohio tekur yfir reksturinn og innstæður. Það má því segja að tryggingasjóður innstæðueigenda sleppi fyrir horn í þessum lokunum.