Forstjórar margra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna hafa miklar áhyggjur af lækkandi gengi Bandaríkjadals.

Samkvæmt frétt Reuters fréttastofunnar hafa forstjórar áhyggjur af því að lækkandi gengi dollarans minnki trúverðugleika bandaríska hagkerfisins á alþjóðavísu, auki verðbólgu innanlands og þegar allt kemur til alls, muni það leiða til þess að hrikta mun í stoðum kerfisins.

Bandaríkjadalur hefur nú náð 14 mánaða lágmarki. Á leiðtogafundi nokkurra forstjóra í Cary borg í N-Karolínu komu áhyggjur forstjóranna fram í umræðum.

„Minna verðgili dollarans er virkilegt áhyggjuefni fyrir bandarískt viðskiptalíf en það sem verra er að það minnkar trúverðugleika efnahagskerfis okkar út á við,“ hefur Reuters eftir Steve Odland, forstjóra Office Depot.

Þá kom jafnframt fram í umræðum forstjóranna að mikil fjárútlát bandarískra stjórnvalda undanfarið muni einungis leiða til þess að dollarinn haldi áfram að lækka.

Fram kemur í frétt Reuters að á meðan Seðlabankinn [seðlabanki Bandaríkjanna] prentar peninga í miklu mæli lækki gengi dollarans með hverjum deginum, sem í raun var fyrirsjáanlegt, hafi peningaprentunin í raun sáralítil áhrif á vöxt og hagnað fyrirtækja – þó það hafi upphaflega verið vonin.

„Ég hef töluverðar áhyggjur af því að ef við tökum ekki í taumana á útgjöldum ríkisins og höldum aftur að peningaprentun Seðlabankans, munum við horfa fram á hækkandi verðbólgu og lækkandi gengi dollarans,“ segir Peter Darbee, forstjóri PG&E í samtali við Reuters.

En þrátt fyrir að áhyggjur af lækkandi gengi Bandaríkjadalsins hafi verið áberandi á ráðstefnu forstjóranna eru ekki allir sammála um að lágt gengi dollarans sé slæmt fyrir hagkerfið.

„Veikt gengi dollarans er okkar sterkasta tæki í dag,“ segir James Goodnight, forstjóri hugbúnaðarframleiðandans SAS en um 65% af tekjum SAS koma erlendis frá og því hefur lækkandi gengi dollarans gagnvart evru orðið til þess að auka tekjur SAS verulega.