Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum hækkuðu í fyrsta skipti í fjóra daga.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar voru helstu ástæður hækkunarinnar óvæntar tölur um aukna fasteignasölu í desember, hækkandi olíu- og málmverð auk þess sem þau uppgjör sem birt voru hjá skráðum félögum í dag voru skárri en menn höfðu þorað að vona.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 1,5%, Dow Jones um 1,8% og S&P 500 um 1,6%.

Lyfjaframleiðandinn Merck hækkaði um 6,6% í dag eftir að hafa birt jákvætt uppgjör en aðrir lyfjaframleiðendur fylgdu í kjölfarið.

Nú hafa 237 félög af þeim 500 sem skráð eru í S&P 500 vísitölunni birt uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung en hagnaður þeirra hefur dregist saman um 37% að meðaltali. Þar með er síðasti ársfjórðungur sá sjötti í röðinni sem félög sýna minni hagnað.

Eins og fyrr segir hækkaði olíuverð í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 40,98 Bandaríkjadali og hafði þá hækkað um 2,25%.