Hagvöxtur í Bandaríkjunum mældist 2,8% á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Það er minna en gert hafði verið ráð fyrir en greiningaraðilar vestanhafs höfðu að meðaltali gert ráð fyrir 3,5% hagvexti. Í byrjun þessa mánaðar gerðu bráðabirgðatölur frá bandaríska viðskiptaráðuneytinu jafnframt ráð fyrir 3,5% hagvexti.

Innflutningur á tímabilinu var mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir sem hefur áhrif til lækkunar á hagvöxt. Þannig jókst innflutningur um 21% á milli ára á þriðja ársfjórðungi, sem er mesta aukning á milli ára í 24 ár eða frá árinu 1985.

Það sem hins vegar kemur að veg fyrir neikvæðan hagvöxt, að sögn Bloomberg fréttaveitunnar, eru fyrst og fremst mikil útgjöld hins opinbera. Þrátt fyrir það er þetta fyrsti ársfjórðungurinn þar sem hagvöxtur mælist frá öðrum ársfjórðungi ársins 2008. Þannig segir Bloomberg að í raun megi halda því fram að verstu kreppunni sé nú lokið, þó enn eigi eftir að koma í ljós hversu vel einkageirinn taki við sér á næstunni.