Hlutabréfamarkaðir hríðlækkuðu í Bandaríkjunum í dag en eins og áður var greint frá hér hefur gríðarlegt tap tryggingarisans AIG haft veruleg áhrif á markaði í dag, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu.

AIG tapaði 61,7 milljörðum Bandaríkjadala á fjórða ársfjórðungi síðasta árs sem en aldrei fyrr hefur bandarísk félag tapað svo miklu á jafn stuttum tíma.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 4%, Dow Jones um 4,2% - og fór í fyrsta skipti undir 7.000 stig frá árinu 1997 - og S&P 500 vísitalan lækkaði um 4,7% og hefur ekki verið jafn lág frá því í október 1996.

Hráolíuverð lækkaði einnig töluvert í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má rekja lækkunina til minni eftirspurnar á næstu misserum. Við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 40 dali og hafði þá lækkað um 10,5% frá opnun í morgun.