Öldungadeildarþingmenn Bandaríkjaþings hafa náð samkomulagi um víðtækan björgunarpakka til handa fjármálakerfinu sem ætlað er að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný vestanhafs.

Talsmenn Demókrata, sem fara með meirihluta í þinginu, tilkynntu seint í gærkvöldi að þeir myndu styðja björgunarpakka að andvirði 780 milljarða Bandaríkjadala en í upprunalegum áætlunum, sem lagðar voru fram af Barack Obama, forseta Bandaríkjanna var gert ráð fyrir 900 milljörðum dala.

Nú hefur verið dregið úr upphæðinni í samkomulagi við Repúblikana í Öldungadeild en þeir höfðu hótað því að tefja málið í þinginu þar sem þeir voru ósáttir við upphæðina.

Rétt er að taka fram að þarna er í raun um að ræða björgunarpakka númer tvö því síðla hausts samþykkti Bandaríkjaþing 700 milljarða dala björgunarpakka sem að stærstum hluta fór í neyðarlán til handa bönkum og fjármálafyrirtækjum auk þess sem stærstu bílaframleiðendur landsins fengu lánað úr sjóðnum og bíða þess að gengið verði frá frekari lánveitingum. Þó eru rúmlega 300 milljarðar dala eftir í þeim sjóð sem ekki er búið að ráðstafa.

Barack Obama hefur þó sagt að þeir 300 milljarðar auk þeirra 900 sem hann ætlaði sér upprunalega að fá samþykkta á þinginu væru nauðsynlegir til að bæði fjárfesta í atvinnulífinu, lána fyrirtækjum og lækka skatta.

Af þeim 780 milljörðum dala sem um ræðir er gert ráð fyrir að 58% þeirra fari í bein útgjöld og lán en 42% þeirra fari í skattalækkanir.

Obama reiddist verulega í gærkvöldi þegar ljóst var að björgunarpakkinn yrði ekki samþykktur. Hann sakaði Repúblikana um að tefja málið en þeir svöruðu á móti að margar áætlanir innan pakkans væru illa ígrundaðar og ómarkvissar.

Bloomberg fréttaveitan greindi frá því í gærkvöldi að leiðtogar flokkanna muni vinna saman að því að útfæra aðgerðirnar í vikunni og búist er við því að jafnvel verði kosið um málið í Öldungadeild um helgina.