Hlutabréfamarkaði lækkuðu í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar hafa fjárfestar nokkrar áhyggjur af bílaiðnaði þar í landi en talið er að bílarisar á borð við GM og Chrysler kunni að verða gjaldþrota þrátt fyrir að fá neyðarlán frá stjórnvöldum.

Auk þessa voru í dag birtar tölur sem sýna að íbúðaverð í Bandaríkjunum hefur nú ekki lækkað jafn mikið frá því í Kreppunni miklu eins og fjallað er um hér.

Til viðbóta við þetta hefur samdráttur vestanhafs ekki verið jafn mikill frá 2001 en samdráttur á þriðja ársfjórðungi þessa árs nam 0,5% og búist er við frekari samdrætti á fjórða ársfjórðungi.

Það má því segja að neikvæðum fréttum hafi rignt yfir fjárfesta í Bandaríkjunum í dag.

Þrátt fyrir það lækkaði Nasdaq vísitalan aðeins um 0,7%, Dow Jones um 1,2% og S&P 500 um 1%. Fyrr í dag höfðu þó flestar vísitölurnar lækkað um rúm 1,5%.