Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag eftir að Goldman Sachs og Morgan Stanley tilkynntu að þeir myndu endurgreiða yfirvöldum neyðarlán sín innan skamms en það þykir gefa til kynna að fjármálakerfið að rétta úr kútnum að mati Bloomberg fréttaveitunnar.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 2,1%, Dow Jones um 1,3% og S&P 500 um 1,6%.

Allar vísitölurnar byrjuðu þó á því að lækka í morgun eftir að nýjar tölur birtust sem sýndu að atvinnuleysi hefði náð 26 ára hámarki en hækkuðu sem fyrr segir seinni part dags.

MasterCard hækkaði í dag um 14% eftir að hafa birt jákvætt uppgjör en Goldman Sachs hækkaði um 5,6% og Morgan Stanley um 5,4% og leiddu þar með hækkanir fjármálafyrirtækja.

Bank of America, stærsti banki Bandaríkjanna, hækkaði um 3% í dag eftir að tilkynnt var að Kenneth Lewis, forstjóri bankans hefði sjálfur keypt 200 þúsund hluti í bankanum í gær en miklar sögusagnir hafa verið um hugsanlega þjóðnýtingu bankans. Kaup Lewis á hlutabréfunum rekja þær sögusagnir til baka að mati viðmælenda Bloomberg.

Hráolíuverð hækkaði lítillega í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 40,9 Bandaríkjadali og hafði þá hækkað um 1,5%.