Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag, annan daginn í röð en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má búast við því að nýjar tölur um atvinnuleysi vestanhafs hristi upp í þingmönnum sem munu samþykkja nýjan 900 milljarða dala björgunarpakka innan skamms, líklega um helgina.

Vinnumálastofnun Bandaríkjanna birti í dag nýjar tölur sem sýndu að tæplega 600 þúsund manns misstu vinnuna í janúar og mælist atvinnuleysi nú 7,6% - og hefur ekki verið hærra í 17 ár.

Nasdaq vísitalan hækkaði í dag um 2,9% en Dow Jones og S&P 500 um 2,7%. Miðað við lok markaða í dag stendur Nasdaq á núlli frá áramótum.

„Nýjar tölur um atvinnuleysi og óróa á markaðnum mun setja þrýstingi á þingið til að samþykkja björgunaraðgerðir,“ hefur Bloomberg eftir viðmælanda sínum í dag.

Annar varar þó við því að björgunaraðgerðir verði samþykktar í óðagoti og án íhugunar.

Bank of America, stærsti banki Bandaríkjanna, hækkaði um 32% eftir að stjórn bankans tilkynnti í morgun að bankinn myndi ekki þurfa neyðarlán frá yfirvöldum en mikið hefur verið um það rætt síðustu daga að bankinn væri illa staddur og þyrfti lán eftir að hafa yfirtekið Merrill Lynch.

Þær sögur gengu jafnvel það langt að fjölmiðlar voru farnir að greina frá því að bankinn yrði hugsanlega þjóðnýttur.

Sá hluti S&P 500 vísitölunnar sem snýr að fjármálageiranum hækkaði um 6,4% í dag, mest allra liða í vísitölunni.

Sem dæmi um hækkanir fjármálafyrirtækja hækkaði Citigroup um 12% og JP Morgan um 9,5%.

Hráolíuverð lækkaði nokkuð í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 40,1 Bandaríkjadal og hafði lækkað um 2,5% frá opnun markaða.