Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag eftir að hafa lækkað í gær.

Þannig hækkaði Nasdaq vísitalan um 1,5%, Dow Jones um 0,7% og S&P 500 um 0,8%.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar er annað hljóð í fjárfestum í dag en í gær hvað varðar mögulegar björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda og skattalækkanaáform Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna.

Í gær höfðu menn áhyggjur af því að skattalækkanir á fyrirtæki myndu ekki koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja.

Það er svo sem ennþá tónninn í fjárfestum en þó er talið að færri fyrirtæki verði gjaldþrota og greiningardeild Citygroup spáði því í dag að um mitt ár muni einkaneysla aukast á ný (vegna færri uppsagna en áður hafði verið áætlað) en einkaneysla telur um 2/3 af bandarísku hagkerfi.

Olíuverð hafði lækkað lítillega við lok markaða í dag en tunnan af hráolíu hafði um tíma farið yfir 50 Bandaríkjadali á mörkuðum í New York í dag. Við lok markaða kostaði tunnan 48,44 dali og lækkar því um 0,8% frá því í gær.