Hlutabréfamarkaðir lækkuðu vestanhafs í dag en Seðlabanki Bandaríkjanna gaf í dag út afkomuspá þar sem gert er ráð fyrir meiri samdrætti á þessu ári en áður hafði verið spáð. Samkvæmt spá Seðlabankans er gert ráð fyrir 0,5% - 1,3% samdrætti á árinu.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 0,2%, Dow Jones stóð í stað en S&P 500 lækkaði um 0,1%. Allar vísitölurnar rokkuðu nokkuð í dag í kringum núllið, hækkuðu um rúmt prósent en höfðu fyrr í morgun lækkað um tæpt 1,5%.

Þá lækkuðu bankar og fjármálafyrirtæki eftir að Obama bandaríkjaforseti tilkynnti að til stæði að verja rúmlega 270 milljörðum dala til að koma í veg fyrir nauðungaruppboð heimila. Sú ákvörðun vekur upp blendnar tilfinningar meðal fjárfesta þar sem talið er að það muni auka á tap bankanna og í raun framlengja efnahagskrísunni um nokkurn tíma þó það kunni að líta vel út í byrjun, að sögn viðmælanda Bloomberg fréttaveitunnar.

Þannig lækkuðu stærstu bankarnir, Wells Fargo, Bank of America og Citigroup allir um tæp 5,6% - 6,8%.

Hráolían hélt áfram að lækka en þó ekki jafn mikið og í gær. Við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 34,5 dali og hafði þá lækkað um 1,2% frá því í gær.