Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má rekja lækkanir dagsins alfarið til vonbrigða fjárfesta með svokallaðar björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda sem kynntar voru í dag.

Eins og fram kom fyrr í dag hyggst ríkisstjórn Barack Obama setja á fót eignarhaldsfélag sem mun yfirtaka svokölluð eitruð veð fjármálafyrirtækja í þeirri von að „hreinsa fjármálakerfið“ eins og Tim Geithner, fjármálaráðherra orðaði það í dag.

Ræðu Geithner hafði verið beðið með óþreyju en hann var fyrir nokkrum dögum búinn að kynna að hún yrði haldin í dag. Þegar hann viðurkenndi í fyrirspurnartíma að enn ætti eftir að útfæra verkefnið nánar og það yrði kynnt síðar „varð fjármálakerið í heild fyrir miklum vonbrigðum,“ eins og einn viðmælandi Bloomberg orðar það.

Það sást best á því að þar sem enn var opið fyrir viðskipti í Evrópu fóru markaðir að lækka auk þess sem allt varð rauðglóandi á Wall Street.

Þrátt fyrir að áætlaðs sé að verja allt að 500 milljörðum dala í verkefnið er sem fyrr segir óljóst um nánari útfærslur á aðgerðinni auk þess sem erfitt er að meta verðgildi bréfa um þessar mundir og því bregðast fjárfestar illa við að mati Bloomberg.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 4,2%, Dow Jones um 4,6% og S&P 500 um 4,9% en vísitalan hefur nú ekki verið lægri frá því að Obama varð forseti.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins auk tryggingafélaga. Þannig lækkaði Bank of America um 19%, Citigroup um rúm 16% og tryggingafélagið Principal Financial Group um 32% svo dæmi séu tekin.

Sá hluti S&P 500 vísitölunnar sem snýr að fjármálageiranum lækkaði í heild um 11%.

Hráolíuverð lækkaði nokkuð í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 38 Bandaríkjadali og hafði þá lækkað um 3,8% frá opnum markaða.

Gull hækkaði hins vegar í verði og kostaði únsan af gulli 917,9 dali við lok markaða og hafði þá hækkaði um 2,8%.