Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum ruku upp undir lok dags eftir að bandaríski seðlabankinn tilkynnti að stýrivextir bankans yrðu lækkaðir í 0% - 0,25% og að bankinn myndi grípa til allra tiltækra ráða til að binda endi á þá krísu sem ríkir í alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir.

Reyndar höfðu markaðir hækkað lítilla frá opnun í morgun vegna væntinga um stýrivaxtalækkun (stýrivextir voru 1% þangað til í dag) en sem fyrr segir fóru þeir enn frekar upp á við eftir að bankinn tilkynnti ákvörðun sína.

Við lok markaða hafði Nasdaq vísitalan hækkað um 5,4%, Dow Jones um 4,3% og S&P 500 um 5,2%.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins. Þannig hækkaði Citigroup um 9,8%, JP Morgan um 11% og Goldman Sachs, sem í dag kynnti fyrsta tap sitt frá því að bankinn fór á markað , hækkaði um 15%, en þrátt fyrir tap bankans var það minna en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir.