Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum ýmist hækkuðu eða lækkuðu í dag en helstu jákvæður fréttir dagsins, sem rifu upp markaði sem voru þegar búnir að lækka voru góðar afkomutölur Google og eins bárust fréttir af því að bandaríska þingið væri að leggja lokahönd á frekar ráðstöfun þess fjármagns sem enn er eftir í 700 milljarða dala björgunarsjóðnum svokallaða.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 0,8% og S&P 500 vísitalan hækkaðu um 0,5% en báðar höfðu þær lækkað fram eftir degi. Dow Jones vísitalan náði sér þó aldrei á strik og lækkaði um 0,6%.

Þar með hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 2,5% í þessari viku og 7,3% það sem af er ári. Dow Jones lækkaði um 3% í þessari viku og hefur lækkað um 8,5% það sem af er ári. Þá hefur S&P 500 einnig lækkað um 3% í vikunni og 8,7% það sem af er ári.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem tóku við sér um miðjan dag og leiddu þær hækkanir sem á annað borð urðu á mörkuðum.

Verð á hráolíu hækkaði nokkuð í dag, sem síðan leiddi til hækkunar félaga á borð við Exxon og Chevron, en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 45,94 dali og hafði þá hækkað um 5,2%.