Samdráttur á fyrstu 12 mánuðum yfirstandandi samdráttarskeiðs í Bandaríkjunum var meira en tvöfaldur á við það sem ætlað hafði verið. Samdrátturinn frá því á síðasta fjórðungi ársins 2007 til og með síðustu mánuðum ársins í fyrra nam 1,9% en hafði áður verið talinn 0,8%, að því er segir í frétt Bloomberg.

Landsframleiðslan sl. ár hefur dregist saman um 3,9% og samdráttarskeiði nú er þar með það versta frá Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar.

Einkaneysla, sem er um 70% af bandaríska hagkerfinu, dróst saman um 1,8% á síðasta fjórðungi í fyrra frá sama fjórðungi árið 2007. Áður hafði verið talið að samdrátturinn hefði verið minni, eða 1,5%.

Í frétt Bloomberg segir að þessar nýju tölur hjálpi við að útskýra hvers vegna atvinnuleysið jókst um 2,3% í fyrra, sem er mesta aukning frá árinu 1982.

Minni samdráttur árið 2001 en talið hefur verið

Nýju tölurnar sem verið var að birta eru hluti heildarendurskoðunar sem gerð er á nokkurra ára fresti og tölur allt aftur til ársins 1929 geta verið endurskoðaðar. Við endurskoðun á tölum frá árinu 2001 kom í ljós að samdrátturinn þá var minni en áður hefur verið talið. Hagkerfið óx raunar um 0,1% frá síðasta fjórðungi ársins 2000 til þriðja fjórðungs árið 2001, en áður hafði verið talið að hagkerfið hefði dregist saman um 0,2% á þessu tímabili.