Pantanir á varanlegum neysluvörum í Bandaríkjunum fjölgaði töluvert í júlí og hefur ekki fjölgað jafn mikið á milli mánaða í tvö ár, eða frá því í júlí 2007, að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þannig fjölgaði pöntunum um 4,9% í júlí eftir að þeim hafði fækkað um 3,1% í júní samkvæmt tölum frá bandaríska viðskiptaráðuneytinu.

Pöntunum á varanlegum neysluvörum hefur þó fækkað verulega á milli ára, eða um 25,8%. Þrátt fyrir að fjölgun pantana í júlí sé nokkuð meiri en greiningaraðilar á vegum Reuters höfðu gert ráð fyrir er enn talið langt í land með að þær ásættanlegar fyrir framleiðslufyrirtæki.

Að sögn Reuters er mesta fjölgunin í pöntunum á samgönguvörum, þá helst frá flugvélaframleiðendum. Pantanir á samgönguvörum, eins og þær eru flokkaðar, jukust um 18,4% í júlí og hefur ekki fjölgað jafn mikið á einum mánuði frá því í september 2006. Á öðrum vörum hefur lítil aukning orðið á pöntunum.

Eins og gefur að skilja er það helst flugvélaframleiðandinn Boeing sem heldur uppi pöntunum á vörum tengdum flugvélaframleiðslu. Þær pantanir eru þó misjafnar á milli mánaða og því ekki langvarandi. Þá hafa verksmiðjur bílaframleiðandanna Chrysler og General Motors (GM) opnað að hluta til á ný sem síðan leiðir til hækkana á framleiðsluvörum í þeim geira.

Viðmælendur Reuters vara þó við of mikilli bjartsýni. Opnun á verksmiðjum Chrysler og GM útskýri að miklu leyti þessa miklu aukningu í júlí ásamt því að Boeing hefur safnað til sín óvenju mikið að vörum. Réttar sé að skoða samdráttinn sem orðið hefur á pöntunum á varanlegum neysluvörum milli ára og það gefi rétta mynd af ástandinu.

Pantanir á varanlegum neysluvörum þykja gefa nokkuð haldbæra mynd af framleiðslu vestanhafs og eru tölulegar staðreyndir um framleiðsluna oft notaðar til að draga upp mynd af viðskiptalífinu.