Hlutabréfamarkaðir héldu áfram að hækka í Bandaríkunum í dag, þriðja daginn í röð og hafa nú ekki hækkað jafn mikið í þrjá daga frá því í byrjun nóvember í fyrra.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 4%, Dow Jones um 3,5% og S&P 500 um 4,1%.

Að sögn Bloomberg munaði mestu um tilkynningu General Electric í dag þar sem greint var frá því að þrátt fyrir að Standard & Poor’s hefði lækkaði lánshæfismat félagsins úr AAA myndi það lítil sem engin áhrif hafa á rekstur félagsins þar sem lítil þörf væri á endurfjármögnun á fyrri hluta þessa árs. Þannig hækkaði félagið um 13% í dag og hafa hækkað um 36% í þessum mánuði.

Þá leiddi Bank of America hækkanir á meðal banka og fjármálafyrirtækja eftir að bankinn gaf út jákvæða afkomuspá fyrir árið. Þá sagði Kenneth Lewis, forstjóri bankans í samtali við fjölmiðla vestanhafs að nánast engar líkur væri á því að bankinn þyrfti á frekari ríkisaðstoð að halda.

Þá rauk hráolíuverð upp í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 47 dali og hafði þá hækkað um 11% frá opnun markaða.