Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að birta opinberlega niðurstöður úr álagsprófi banka og fjármálafyrirtækja þar í landi í næsta mánuði.

Bandaríska fjármálaráðuneytið framkvæmir reglulega álagspróf á bönkunum en niðurstöður þeirra hafa ekki verið birtar opinbera hingað til, þ.e.a.s. í smáatriðum heldur hefur aðeins verið greint frá því hvort þeir standist prófið eða ekki.

Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins sagði í samtali við Reuters fréttastofuna fyrir helgi að í byrjun maí verði greint frá því hvernig prófin er framkvæmd og síðar í sama mánuði verða niðurstöður úr nýjustu prófunum birtar opinberlega.

„Við vonum að bankar sem eru í vandræðum og þurfa hjálp opinbera aðila komi fyrst til okkar og biðji um hjálp þannig að hjá þessu verði komist,“ sagði Gibbs og bætti því við að þetta yrði gert til að auka trúverðugleika og gegnsæi á markaði.

„Fjárfestar hafa rétt á að vita hvernig bankarnir standa í raun og veru,“ sagði Gibbs. „Með þessu móti náum við að skoða stöðu þeirra enn betur.“