Pöntunum á varanlegum neysluvörum fjölgaði óvænt í september um 0,8% en þar munar mestu um auknar pantanir á samgöngutækjum og hernaðargögnum samkvæmt tölum frá bandaríska viðskiptaráðuneytinu.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Pöntunum á varanlegum neysluvörum hafði fækkað um 5,5% í ágústmánuði og því kemur aukningin nú nokkuð á óvart að sögn Reuters.

Greiningaraðilar á vegum Reuters höfðu gert ráð fyrir 1,2% samdrætti á pöntunum í september.

Pöntunum á vörum ætluðum til her- og varnarviðbúnaðar fjölgaði um 19,6% í september. Þær vörur innihalda meðal annars þyrlu- og flugvélaframleiðslu og skipasmíði sem ekki eru ætlaðar til farðþegaflutninga.

Vörum ætluðum til samgöngumála og farþegaflutninga fjölgaði hins vegar um 6,3% og munar þar mestu um 3% aukningu á bílahlutum.