Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag eftir að hafa þó sýnt rauðar tölur mest allan daginn í dag.

Þannig hækkaði Nasdaq vísitalan um 0,4%, Dow Jones um 0,6% og S&P 500 um 0,5%.

General Motors hækkaði um 14% í dag en í fyrradag féllst Seðlabanki Bandaríkjanna á beiðni GMAC Financial Services um að verða banki, sem mun veita General Motors aðgang að ríkisaðstoð og lánum frá Seðlabankanum. Þá hækkaði Ford um 8,1% en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar mun aðstoð við General Motors einnig koma sér vel við Ford.

Skiptar skoðanir eru þó um ágæti bankaleyfis GMAC. Viðmælandi Bloomberg minnir á að bandarískir skattgreiðendur séu að bjarga enn einu fjármálafyrirtækinu.

„Það gæti orðið slæmt til langs tíma litið en í bili er þetta talið jákvætt,“ segir Ralph Shive, framkvæmdastjóri Wasatch 1st Source fjárfestingasjóðs.

Olíuverð hækkaði nokkuð í dag eða um 7,2% eftir að Sameinuðu arabísku furstadæmin sögðust mundu fylgja samþykkt Opec um niðurskurð á framleiðslu.. Við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 37,9 Bandaríkjadali.

Markaðir voru lokaði í Evrópu í dag vegna hátíðanna.