Fulltrúar repúblikana og demókrata í Bandaríkjunum vinna nú hörðum höndum að mótun aðgerðaráætlunar sem ætlað er að koma þarlendum fjármálamörkuðum til bjargar.

Demókratinn, Harry Reid, hefur tilkynnt að viðræðurnar lofi góðu og miklar framfarir hafi orðið á þeim, en upp úr viðræðunum slitnaði í mikilli heift síðasta fimmtudag.Viðræðum flokkana hefur verið fram haldið nú um helgina, en Reid segir að enn sé langur vegur að samkomulagi.

Frá þessu er greint á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

BBC hefur það eftir repúblikananum Mitch McConnell að stefnt sé að því að tilkynna um samkomulagið á morgun, sunnudag. Ef niðurstaða fæst mun vera kosið um hana, í formi frumvarps, á Bandaríkjaþingi á mánudaginn.

Mikilvægt þykir að útlínur samnings verði komnar fram fyrir opnun markaða á mánudaginn.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, vísaði því á bug, í vikulegu útvarpsávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar, að umrædd aðgerðaráætlun, til bjargar fjármálamörkuðum, muni kosta skattborgara 700 milljarða bandaríkjadala, en sú upphæð hefur verið nefnd í fjölmiðlum.