Seðlabanki Bandaríkjanna hefur nú lokið 25 milljarða dala skuldabréfaútgáfu (rúmlega 2 þúsund milljarða ísl. króna) en að sögn bankans er skuldabréfaútgáfan til þess fallin að auka lausafé á mörkuðum í Bandaríkjunum.

Samkvæmt tilkynningu frá bankanum voru alls 64 aðilar sem sóttust eftir skuldabréfum bankans og fékk bankinn tilboð upp á tæpa 55 milljarða dala.

Skuldabréfin bera 2,254% vexti og er gefin út í 84 daga í stað 25 daga líkt og verið hefur í síðustu skuldabréfaútgáfum. Samkvæmt Reuters fréttastofunni er það gert til að mæta erfiðri stöðu banka þar í landi.

Stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú 2% en í síðustu viku tilkynnti Seðlabankinn um óbreytta stýrivexti af ótta við aukinn verðbólguþrýsting.