Bandaríski Seðlabankinn mun að öllum líkindum halda stýrivöxtum sínum nálægt núlli, allavega þangað til efnahagskerfi Bandaríkjanna fer að sýna haldbær batamerki og Seðlabankinn fer að sjá fram á lok fjármálakrísunnar.

Þetta kom fram í ræðu Donald Kohn, aðstoðarseðlabankastjóra Bandaríkjanna þegar hann ávarpaði ráðstefnu í Princeton háskólanum í gær.

„Hagkerfið virðist vera að ná jafnvægi um þessar mundir,“ sagði Kohn en ítrekaði þó um leið að enn væri langt í land að fullum bata og engin merki væru sjáanleg um uppgang hagkerfisins. Þangað til það gerðist yrði stýrivöxtum haldið eins lágum og þörf kræfi.

Stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú 0% - 0,25% eftir atvikum og þá hefur Seðlabanki Bandaríkjanna skuldbundið sig til gífurlegra lánsveitinga auk þess sem bankinn, í samráði við bandaríska fjármálaráðuneytið, hefur lagt fram áætlanir um að kaupa upp eitruð veð fjármálastofnana fyrir allt að 1000 milljarða Bandaríkjadala. Ónafngreindur viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar af Wall Street segir að með öðrum orðum séu prentvélar Seðlabankans í gangi dag og nótt.

Kohn tók þó fram í ræðu sinni að þrátt fyrir viðkvæmt hagkerfi þyrfti Seðlabankinn að lýsa því yfir að takmörk yrðu sett á lánveitingar, annað gæti myndað falskar vonir á mörkuðum, og um leið og batamerkin færu að sjást þyrfti bankinn að undirbúa stýrivaxtahækkanir.

„Til að tryggja bæði trúverðugleika bankans og eins að ná fram stöðuleika í verðlagi peninga þurfum við [Seðlabanki BNA] að vera búin að gera áætlanir til að rétta af fjárhag [Seðla]bankans og eins að ná niður mögulegri verðbólgu. Í þeirri baráttu þurfa að liggja trúverðugar áætlanir að baki,“ sagði Kohn.

Þá sagði Kohn að með því að gefa út langtíma skuldabréf með lágu vöxtum gæti bankinn komið heimilum landsins til aðstoðar þar sem þeim gæfist kostur á því að endurfjármagna sig með ríkistryggðum skuldabréfum.