Bandarísk yfirvöld hafa frá því um síðustu helgi tekið yfir sex bankastofnanir sem þýðir að nú hafa alls 130 banka verið teknir yfir það sem af er ári.

Áður hefur verið greint frá yfirtöku yfirvalda á bönkum og fjármálastofnunum víðs vegar um Bandaríkin en Bloomberg fréttaveitan gerir ráð fyrir því að enn fleiri bankar eigi eftir að falla á þeim þremur vikum sem er til áramóta.

Síðastliðinn föstudag voru þrír bankar teknir yfir í Georgia ríki en þá hafa 24 bankar fallið í því ríki það sem af er ári. Þá voru bankar teknir yfir í Virginíu, Illinois og Ohio ríki.

Stærsti bankinn sem tekinn var yfir síðustu helgi var AmTrust Bank með höfuðstöðvar í Cleveland í Ohio ríki. Eignir bankans námu um 12 milljörðum dala og innlán í bankanum voru verðmetin á 8 milljarða dali en allar inneignir voru færðar til  The New York Community Bank of Westbury.

Hinir bankarnir fimm voru með eignir undir einum milljarða dala en talið er að fall þessara sex banka muni þó kosta tryggingasjóð innistæðueigenda þar í land um 2,3 milljarða dali.

Leita þarf aftur til ársins 1992 til að finna jafn marga banka sem hafa hrunið á einu ári. Á síðasta ári hrundu 25 bankar en árið 2007 voru þeir aðeins þrír.