Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að stjórn sín sé að ganga frá áætlun sem eigi að losa um lánsfjármarkaði og lækka vaxtakostnað. Hann hét því einnig að hindra stjórnendur fyrirtækja í að komast yfir fé sem ætlað væri til enduruppbyggingar efnahagslífsins, að því er segir í frétt Bloomberg.

Financial Times segir að von sé á stórri tilkynningu um efnahagsaðgerðir frá stjórn Obama í næstu viku. Áætlun Obama feli í sér endurskoðun á 700 milljarða dala sjóðnum sem settur hefur verið upp.

Fréttir af væntanlegum aðgerðum koma í kjölfar nýrra hagtalna sem sýna að bandaríska hagkerfið dróst saman um 3,8% á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er minni samdráttur en spáð hafði verið en þó sá mesti á einum fjórðungi frá árinu 1982.