Búið er að stefna báðum deildum Bandaríkjaþings til fundar á sunnudag til að reyna að ná samkomulagi um fjárlög næsta árs. Sem kunnugt er hefur meirihluti fulltrúardeildar þingsins ekki samþykkt fjárlög næsta árs og síðustu daga og vikur hefur ríkt hálfgert stríðsástand í þinginu á milli Demókrata og Repúblikana um það hvernig haga skuli ríkisfjármálum næsta árs.

Á þriðjudag, þann 1. janúar nk., munu taka gildi umtalsverðar skattahækkanir vestanhafs sem ákveðnar voru af Öldungadeild þingsins, en þar fara Demókratar með meirihluta. Repúblikanar, sem fara með meirihluta í Fulltrúadeildinni, hafa mótmælt fyrirhuguðum skattahækkunum og hvatt til þess að frekar verði skorið niður í ríkisrekstri.

Ekki hefur tekist að ná lendingu í málinu og allar málamiðlanir hafa verði slegnar út af borðinu. Það kom fréttaskýrendum vestanhafs í opna skjöldu þegar Harry Reid, leiðtogi Repúblikana í fulltrúardeild og þingforseti, varð undir gegn sínum eigin flokksmönnum þegar hann lagði fram málamiðlunartillögu fyrir jól sem fól í stuttu máli í sér að fyrirhugaðar skattahækkanir myndu ná til tekjuhærri hópa en nú er gert ráð fyrir.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sneri til baka til Washington í gær eftir stutt jólafrí á Hawaii. Hann mun í dag og á morgun funda með leiðtogum beggja flokka. Sem fyrr segir hafa þingmenn beggja deilda verið kallaðir til fundar á sunnudag ef ske kynni að kjósa þyrfti um einstaka liði, sem annað hvort snúa að skattamálum eða útgjöldum ríkisins, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar.