Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag eftir að hafa þó hækkað í byrjun dags. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar voru það helst tæknifyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins eftir að Hewlett-Packard gaf út neikvæða afkomuspá fyrir árið en félagið sér fram á minnsta hagnað sinn í 14 ár á þessu ári.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 1,7% en Dow Jones og S&P 500 um 1,2%.

Hewlett-Packard lækkaði um 8,6% eftir að félagið gaf út afkomuspá sína. Í kjölfarið lækkuðu önnur tækni- og hugbúnaðarfyrirtæki líkt og Intel, Dell, Microsoft og Apple svo dæmi séu tekin.

En það voru ekki bara tæknifyrirtæki sem lækkuðu í dag því bankar og fjármálafyrirtæki lækkuðu einnig eftir að tölur um aukið atvinnuleysi og minni framleiðslu á varanlegum neysluvörum voru birtar í dag.

Þannig lækkuðu Bank of America og Citygroup um 11,5% og 11,9%.

Fjöldi atvinnulausra í Bandaríkjunum heldur áfram að vaxa en nú eru um 4,99 milljón Bandaríkjamanna atvinnulausir en fjöldin jókst um 170 þúsund í síðustu viku samkvæmt tölum frá atvinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Hráolíuverð hækkaði þó nokkuð í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 38,86 dali og hafði þá hækkað um 12,25% frá opnun markaða í morgun. Rétt er þó að geta þess að olíuverð er svipað og það var fyrir viku síðan.