Þingmenn repúblikana og demókrata hafa nú að mestu komið sér saman um drög að aðgerðaráætlun sem ætlað er að bjarga fjármálakerfi Bandaríkjanna.

Á fréttasíðu BBC er haft eftir Nancy Pelosi, þingforseta, að miklar framfarir hafi orðið á viðræðunum. Hins vegir eigi eftir að vinna úr ýmsum smáatriðum og fínpússa frumvarpið. Fulltrúar flokkana hafa setið á rökstólum alla helgina og farið yfir uggandi stöðu fjármálafyrirtækja.

Stjórn Bush sækist eftir um 700 milljarða bandaríkjadala fjárveitingu svo hægt verði að koma fjármálamörkuðum til bjargar.

Frumvarp um þessa svokölluðu björgunaráætlun verður að líkindum lagt fyrir fulltrúadeild bandaríska þingsins í dag, sunnudag.

Umrædd drög munu gefa fjármálaráðherra Bandaríkjanna heimild til þess að líta fram hjá fjárhagsáætlun næstu tveggja ára. Þannig verður unnt að veita fé í verkefni sem brýn þörf þykir á. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa undanfarnar vikur farið mikinn í björgunum fyrirtækja.