Nýjar hagtölur frá Bandaríkjunum veita frekari staðfestingu á því að versti samdrátturinn kunni að vera að baki. Þetta kemur fram í frétt Reuters, sem segir að verð á neysluvörum hafi verið óbreytt og að iðnframleiðsla hafi dregist hægar saman í apríl en í mars.

Þá segir í frétt Reuters að merki um að nú kunni að líða að lokum 17 mánaða gamals samdráttar hafi hjálpað við að lyfta væntingavísitölu neytenda í maí. Hún sé nú hærri en hún hafi áður verið eftir fall fjárfestingarbankans Lehman Brothers í september.

Viðsnúningi spáð í ágúst

Þetta er í samræmi við niðurstöður könnunar Wall Street Journal meðal 52 hagfræðinga. Þeir telja að samdrættinum ljúki í ágúst næstkomandi en að það muni taka hagkerfið mörg ár að ná sér. Flestir telja að það taki 3-4 ár en næstflestir að það taki heldur lengri tíma, eða 5-6 ár. Aðeins 7 af 52 telja að það taki hagkerfið 1-2 ár að jafna sig að fullu.

Hagfræðingarnir 52 telja að hægur vöxtur taki við á þriðja fjórðungi þessa árs og að vöxturinn verði yfir 2% á fyrri helmingi næsta árs.