Útlit er fyrir að efnahagslífið í Bandaríkjunum sé að rétta úr kútnum eftir verstu niðursveiflu frá Kreppunni miklu. Þetta kemur fram í WSJ sem segir ennfremur að þar sem búist sé við að neytendur fari mjög varlega í eyðslu þá sé bati í efnahagslífinu mjög háður hegðun fyrirtækja á næstu mánuðum.

Ef fyrirtækin hætti að ganga á birgðir og draga úr fjárfestingu kunni það að verða fyrsta skref í uppsveiflu. Að sögn WSJ voru ákveðin batamerki hjá fyrirtækjum í nýjum tölum um landsframleiðslu á öðrum fjórðungi ársins, en stjórnendur munu vera mjög varkárir.

Fjárfestingar í tækjum og hugbúnaði dróst saman um 9% á öðrum fjórðungi mælt á ársgrunni. Þetta er mun minni samdráttur en næstu tvo fjórðunga á undan þegar hann var 36% og 26%. Útflutningur dróst saman um 7% eftir að hafa fallið um 30% og 25% næstu tvo fjórðunga á undan.

Lex segir ástandið ekki að batna

Þess má geta að höfundur Lex í FT er ósammála þeim sem telja að nú sé að birta til í bandarísku efnahagslífi. Þar er bent á að atvinnuleysi sé enn á uppleið og skuldir heimila mjög háar þannig að ekki komi á óvart að neytendur standi á bremsunni. Höfundur Lex gefur lítið fyrir að minnkandi birgðir muni lífga efnahagslífið við eða að útflutningur sé líklegur til þess þegar samdráttur ríki um allan heim. Lex fullyrðir að bandarískt efnahagslíf sé ekki að batna, það njóti bara æ meiri innspítingar vegna opinberrar eyðslu og lágra vaxta. Minni verkir í kjölfar verkjalyfjagjafar þýði hins vegar ekki að sjúklingnum sé að batna.