Í nýrri skýrslu frá BNP Paribas, stærsta banka Frakklands, kemur fram að íslenska bankakerfið sé ekki að bráðna. Í skýrslunni segir að bankinn hafi verið neikvæður í garð íslensku bankanna frá því snemma í október en að ársreikningar sem birtir verði í næstu viku og breytt verðlagning, hafi neytt BNP Paribas til að endurskoða afstöðu sína.

Þeir sem semja skýrsluna eru hluti af lánateymi BNP Paribas og horfa á bankana úr þeirri átt. Í skýrslunni kemur fram að þegar þeir raði bönkunum út frá lánshæfi sé Landsbankinn [ LAIS ] fremstur, þá Glitnir [ GLB ] og loks Kaupþing [ KAUP ]. BNP Paribas segist því sammála verðlagningu markaðarins og vísar í því sambandi til þess að skuldatryggingarálagið er lægst hjá Landsbankanum en hæst hjá Kaupþingi.

Of harkaleg viðbrögð á markaði

Skýrsluhöfundar telja að markaðurinn hafi brugðist of harkalega við vegna áhyggja af fjárfestingarfélögum og bönkunum hafi verið refsað í kjölfarið. Fram kemur að álagið á 5 ára skuldatryggingaálag Kaupþings, 555/570 punktar, feli í sér að líkur á gjaldfalli séu 38% til fimm ára og 13% til eins árs. „Þessar líkur fela bæði í sér skuldara- og markaðsáhættu, en við eigum afar erfitt með að ímynda okkur að Kaupþing geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.“