BNP Parisbas í Frakklandi er nýjasti erlendi bankinn sem kaupir hlut í kínverskri fjármálastofnun. Nýlega keypti bankinn um 20% hlut í Nanjing City Commercial Bank, segir í Financial Times.

Svæðisbankinn er í austurhluta Kína, í borg sem heitir Nanjing. Á þriðjudag kom fréttatilkynning frá bankanum, þar er tilkynnt um 18-19,7% kaup BNP Parisbank. Með kaupunum öðlast Frakkarnir sæti í bankaráði.

Talið er að kaupverðið nálgist 100 milljónir dollara. BNP Parisbas fylgir þar með hrinu kauptilboða erlendra banka í kínverska fjármálageiranum, svo sem eins og Deutsche Bank, Bank of America og Royal Bank of Scotland. Þetta undirstrikar vaxandi vægi kínverska hagkerfisins fyrir erlenda fjárfesta.

Ólíkt öðrum fjárfestum hefur BNP Parisbank ákveðið að fjárfesta í banka sem hefur aðeins leyfi til að starfa innan einnar borgar, Nanjing. Talið er að það sé auðveldara rekstarfyrirkomulag heldur en hjá fjármálastofnunum sem eru með starfsemi vítt og breytt um alþýðulýðveldið.

Nanjing City Commercial Bank var stofnaður árið 1996 í samnefndri borg. Útibúin í Nanjing eru aðeins 58, brotabrot af tugum þúsunda útibúa fjögurra stærstu banka Kína. Undir lok síðasta árs voru eignir bankans 4,7 milljarðar dollarar. Árið 2001 seldi bankinn 15% hlut til International Finance Corporation, sem er hluti af World Bank. Kaupverðið var 27 milljónir dollara.

Erlendir fjárfestar mega ekki eiga meira en 25% hlut í kínverskum lánastofnunum og einstakir fjárfestar ekki meira en 20% hlut.