Nýlega festi eignarhaldsfélagið BNT kaup á þremur samliggjandi athafnalóðum á Akranesi sem mynda stórt svæði með góðri staðsetningu sem býður upp á ýmsa möguleika. Samkvæmt heimildum Skessuhorns eru uppi hugmyndir um byggingu fjölþjónustufyrirtækis fyrir bíleigendur á svæðinu.

Í Skessuhorni kemur einnig fram að Bílanaust, dótturfélag BNT,  hefur á undanfarandi misserum markvisst verið að kaupa rekstur hjóbarðafyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu, samanber kaup á Bæjardekki, Dekki.is og Hjólbarðaverkstæðinu Dekkinu og virðist sem félagið stefni að aukinni starfsemi á landsbyggðinni.

Eignarhaldsfélagið BNT var stofnað árið 2006 þegar hluthafar og stjórnendur Bílanaustar hf. ásamt nokkrum fjárfestum keyptu allt hlutafé í Olíufélaginu ehf. og sameinuðu rekstur félaganna undir BNT hf. sem á allt hlutafé í báðum félögunum. Eftir samrunann störfuðu um 700 manns hjá þessum fyrirtækjum og var samanlögð áætluð velta yfir 30 milljarða króna árið 2006.