Forsætisráðherra, Geir H. Haarde, ritaði í gær bréf til formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi og tilkynnti um nýtt reglubundið samráð um þjóðaröryggismál. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra á Alþingi í dag.

Hún sagði að gert væri ráð fyrir því að formennirnir hittust vor og haust til að fjalla um stöðu og þróun mála varðandi þjóðaröryggi og hættumat, stöðu mála innan alþjóðastofnana og samráð við helstu samstarfsríki.

„Þetta samráð mun koma til viðbótar öflugu starfi utanríkismálanefndar," sagði Ingibjörg Sólrún. „Með þessu er komin til framkvæmda yfirlýsing ríkisstjórnarinnar úr stjórnarsáttmála," bætti hún við.