Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vonast til að hægt verði að boða til eigendafunda Nýja Kaupþings og Nýja Glitnis sem allra fyrst - helst strax í næstu viku - til að hægt verði að fullskipa bankaráðin í ljósi þess að formenn þeirra hafa óskað eftir því að verða leystir frá störfum sínum.

Þeir Magnús Gunnarsson og Valur Valsson vilja hætta strax þrátt fyrir að fjármálaráðherra hafi beðið þá um að sitja að minnsta kosti fram til aðalfundanna í apríl.

Steingrímur segist þó skilja þeirra sjónarmið.

Í sameiginlegu bréfi þeirra Magnúsar og Vals til ráðherra í vikunni segja þeir mikilvægt að allri óvissu um stjórn bankanna verði eytt sem allra fyrst „og þess vegna teljum við rétt að víkja til hliðar og skapa með því svigrúm til mannabreytinga,“ segja þeir í bréfinu.