Boðaðar hækkanir á virðisaukaskatti, tekjuskatti og launatengdum gjöldum eiga að skila 10,4 milljörðum króna á þessu ári og 28 milljörðum á því næsta. Skattahækkanirnar á þessu ári verða því um 130.000 krónur að meðaltali á hverja fjölskyldu, að því er segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans, og 270.000 krónur á næsta ári. Skattarnir leggjast þó ekki jafnt á alla því að gert er ráð fyrir að 20% af skatttekjunum leggist aðeins á þá sem hafa hærri laun.

Í Hagsjá segir einnig að miðað við efnahagsáætlun stjórnvalda, sem lögð hafi verið til grundvallar samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, vanti enn 22 milljarða króna þrátt fyrir þær aðgerðir sem gripið hafi verið til. Þetta þýði að annaðhvort verði að herða enn skattlagningu til að brúa bilið eða ná jöfnuði með auknum niðurskurði og vexti skattstofnanna.