Boðaðar breytingar ríkisstjórnarinnar á virðisaukaskatti og vörugjöldum draga úr aðhaldi í ríkisrekstrinum á tíma þegar full þörf er á aðhaldi, segir greiningardeild Glitnis.

Ríkistjórnin tilkynnti í gær breytingar á virðisaukaskatti og vörugjöldum á mat, drykk og þjónustu á veitingahúsum. Breytingarnar taka gildi 1. mars. Reiknað er með að vísitalaneysluverðs lækki um 2,7% og skattalækkunin kosti ríkissjóð sex milljarða á næsta ári en sjö milljarða ef tekið er tillit til heils árs.

?Þenslueinkennin í íslenskum þjóðarbúskap eru víða og sjást m.a. í mikilli verðbólgu og viðskiptahalla. Þótt hagspár gefi til kynna mjúka lendingu hagkerfisins á næsta ári þá byggja þær á aðhaldssamri hagstjórn á tímabilinu. Ótímabært og varasamt er m.t.t. stöðugleika að hið opinbera boði nú lækkun skatta og gjalda sem og aukningu framkvæmda þó svo að þær aðgerðir komi ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári," segir greiningardeildin.

?Aðhaldið sem boðað var í frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fram í upphafi mánaðarins var að okkar mati nálægt því nægjanlegt til að tryggja stöðugleika á næsta ári. Meira aðhald hefði verði æskilegt til að hjálpa Seðlabankanum við lækkun vaxta en stýrivextir hans eru nú 14%. Nú er ljóst að aðhald í ríkisrekstrinum verður umtalsvert minna en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Þetta merkir að aðhaldið í peningamálum þarf að vera meira til að slá á þenslu," segir greiningardeildin.

Hún telur að skattalækkunin gæti haft áhrif á vaxtastefnu Seðlabankans.

?Þar vegast á annars vegar að líkurnar á að bankinn nái verðbólgumarkmiði sínu fyrir árslok 2007 hafa nú aukist verulega, og hins vegar að þessi aðgerð er þensluhvetjandi og eykur því við undirliggjandi verðbólguþrýsting. Við teljum líklegt að fyrrnefndu áhrifin vegi í reynd þyngra og nú sé ólíklegra en áður að Seðlabanki hækki stýrivexti sína frekar. Einnig virðist sennilegt að stýrivextir lækki meira á næsta ári en við höfum áður spáð," segir greiningardeildin.