Bob Diamond, fyrrverandi bankastjóri breska bankans Barclays, sem reyndar lét undan þrýstingi í gær og sagði upp störfum, vísaði því á bug í vitnaleiðslu fyrir þingnefnd í dag að hafa vitað nokkurn skapaðan hlut um markaðsmisnotkun á millibankavöxtum innan vegna bankans.

Eins og greint er frá í umfjöllun netútgáfu bandaríska stórblaðsins The Wall Street Journal af málinu þá fór Diamond stórum; í stað þess að ræða um mögulega eigin ábyrgð á málinu og ástæðuna fyrir því að hann vissi ekkert af brotunum þá fetti hann fingur út í stjórnendur annarra banka, sérstaklega þeirra  sem breska ríkið tók yfir að hluta þegar fjármálakreppan stóð sem hæst síðla árs 2008, og lánveitingar til þeirra. Á meðal bankanna sem ríkið tók yfir að hluta og Diamond nefndi voru Royal Bank of Scotland, Lloyds og fleiri stórir bankar í Bretlandi. Stjórnendur beggja banka greindu frá því í vikunni að þeir vinni með breskum fjármálayfirvöldum við rannsóknina á markaðsmisnotkuninni.

Barclays var sektaður um 290 milljónir punda, jafnvirði tæpra 60 milljarða króna, um mánaðamótin vegna brotanna.

Bankastjóranum varð flökurt

Eins og Diamond lýsti málinu fengu bankarnir sem voru að hluta í eigu hins opinbera veitt ódýr lán á lágum vöxtum. Barclays hafi ekki fengið sömu fyrirgreiðslu. Sökum þessa hafi hann óttast í nokkurn tíma að reksturinn yrði það erfiður að stjórnvöld myndu nýta tækifærið og taka yfir hluta bankans. Þetta sagði hann ástæðuna fyrir því að stjórnendur bankans hafi farið að leita nýrra hluthafa í Mið-Austurlöndum síðla árs 2008.

„Við vorum örvæntingarfull. Við höfðum safnað 6,7 milljörðum punda af nýju eigin fé. Við hefðum lent í vanda ef það hefði spyrst út að við gætum ekki fjármagnað okkur,“ sagði Diamond.

Þá sagði Diamond að þegar hann hafi komist að því að miðlarar innan bankans hafi beitt brögðum á markaði með millibankavexti þá hafi honum orðið flökurt.