Bláa lónið er í vaxtarhug á ýmsum sviðum þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi haft áhrif á reksturinn. Það hefur ráðist í markaðssókn erlendis á húðvörum félagsins, hyggist opna verslun í Kringlunni í vor og komið að byggingu tveggja nýrra baðlóna hér á landi. Það eru Fjallaböðin í Þjórsárdal sem verða opnuð árið 2024 ásamt 40 herbergja hóteli og í Kerlingarfjöllum þar sem á að opna böð, gistirými og veitingaaðstöðu á næsta ári.

Bláa lónið á fyrir hlut í Gufu ehf. sem rekur Fontana á Laugavatni og Jarðböðunum ehf., sem reka jarðböðin við Mývatn og eiga í böðum við Húsavík og Egilsstaði. Bókfært virði beggja félaga var fært niður sem nemur um fimmtungi.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir einnig í ársskýrslu fyrirtækisins, að félagið hafi ráðist í endurbætur á mannvirkjum og stafrænum innviðum fyrirtækisins á meðan lónið hefur verið lokað.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku var þriggja milljarða tap ár rekstrinum í fyrrra, sem er fyrsta tapárið frá árinu 2010 en lónið var lokað nærri hálft árið vegna sóttvarnartakmarkana. Gripið var til uppsagna og annars niðurskurðar en tekjufallið nam 87% frá því faraldurinn hófst í mars og til áramóta.

Í upphafi faraldursins störfuðu 764 hjá Bláa lóninu en 164 var sagt upp í mars eftir að lóninu var fyrst lokað og um 400 starfsmenn beðnir um að nýta hlutabótaleiðina. 403 starfsmönnum til viðbótar var sagt upp í maí. Hluti þeirra var endurráðinn í ágúst en önnur uppsagnarhrina tók við í október eftir að lóninu var lokað á ný.

Bláa lónið fékk greiddar tæplega 600 milljónir úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Félagið hefur verið gagnrýnt fyrir að nýta sér ríkisstuðninginn í ljósi þess hve vel félagið stendur fjárhagslega. Í ársskýrslunni er bent á að skattspor þess í fyrra hafi numið um 2,2 milljörðum króna þrátt fyrir faraldurinn og félagið hafi greitt 723 milljónir í tekjuskatt á árinu vegna afkomu ársins 2019.

© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .