Plain Vanilla mun kynna nýja uppfærslu spurningaleiksins QuizUp í byrjun næsta árs og mun leikurinn þá á vissan hátt breytast í samfélagsmiðil sem ætlað er að keppa við Facebook og Twitter. Þetta segir Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla, í samtali við Markaðinn á Fréttablaðinu.

Þar kemur fram að uppfærslan sé unnin í samstarfi við Apple og Google og hafi verið í þróun síðan í sumar. Þorsteinn segir hugmyndina hafa kviknað þegar starfsmenn fyrirtækisins hafi fengið tölvupósta frá notendum QuizUp með reynslusögum af því hvernig leikurinn hefði leitt saman notendur með sameiginleg áhugamál. „Það er mikið af einmana fólki í heiminum og að tengja fólk saman í gegnum sameiginleg áhugamál er nokkuð sem engum samfélagsmiðli hefur tekist að gera svo vel sé.“