*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 21. apríl 2020 12:43

Boða fjárstuðning til fyrirtækja

Í dagskrá fundar ríkisstjórnarinnar í aðdraganda komandi blaðamannafundar um aðgerðaráætlun 2.0 kennir ýmissa grasa.

Ritstjórn
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti ásamt þeim Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra síðasta aðgerðaráætlunarpakkann í Hörpu.
Eva Björk Ægisdóttir

Ríkisstjórnin tekur fyrir fjölda mála tengdum útbreiðslu kórónuveirufaraldursins sem veldur Covid 19 á fundi sínum í dag, þar á meðal frumvarp til laga um fjárstuðning til rekstraraðila að því er fram kemur á dagskrá hennar í dag.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun hyggst stjórnin greina frá aðgerðarpakka númer tvö vegna heimsfaraldursins á blaðamannafundi í Safnahúsinu, sem áður var kallað Þjóðmenningarhúsið, klukkan fjögur í dag.

Eru efnahagsaðgerðir vegna útbreiðslu veirunnar, aðgerðir 2.0 eins og þær eru kallaðar, á dagskránni í nafni forystumanna ríkisstjórnarflokkanna þriggja, forsætis-, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Í sundurliðun fyrir hvern ráðherra kemur svo fram að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur fjögur mál á sinni könnu, þar af þrjú frumvörp auk uppfærðrar sviðsmyndar um efnahagshorfur.

Um er að ræða frumvarp til laga um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru, frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 og frumvarp til laga um fjárstuðning til rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra fjallar um aukna fjárþörf Vinnumálastofnunar vegna Covid 19.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra boðar frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatillögun.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, ráðherrar dómsmála og heilbrigðismála eru með ferðatakmarkanir til landsins á sinni könnu á fundinum en sú síðarnefnda er auk þess með auglýsingu um afléttingu á takmörkunum á samkomum og skólahaldi 4. maí næstkomandi og drög að stefnu í endurhæfingu.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráherra er síðan með frumvarp til laga um Matvælasjóð og Lilja Alfreðsdóttir um skiptingu fjárveitinga til lista, menningararfs og íþrótta.