*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Erlent 5. nóvember 2020 11:12

Boða frekari magnbundna íhlutun

Englandsbanki hefur boðað frekari kaup á ríkisskuldabréfum. Stýrivextir verða óbreyttir í 0,1%.

Ritstjórn
Englandsbanki gerir ráð fyrir að hagkerfi Bretlands muni dragast saman um tvö prósent á fjórða ársfjórðungi 2020.

Englandsbanki hyggst kaupa ríkisskuldabréf fyrir um 150 milljarða punda, heildarkaup Seðlabankans verða því 875 milljarðar punda. Seðlabanki Englands gerir ráð fyrir að atvinnuleysi í Bretlandi muni aukast til muna en hertar sóttvarnaraðgerðir taka gildi í dag þar í landi.

Stýrivextir verða óbreyttir í 0,1%, að því er segir á vef BBC. Englandsbanki áætlar að hagkerfið muni dragast saman um tvö prósentustig á fjórða ársfjórðungi 2020 en að hagvöxtur taki við sér á komandi ári. 

Seðlabanki Englands gerir ráð fyrir að atvinnuleysi muni ná hámarki í 7,75% um mitt næsta ár. Ef fer sem horfir væri það mesta atvinnuleysi síðan árið 2013 en nú er það um 4,5%. Þessi spá er talsvert dekkri en sú sem birt var í ágúst síðastliðnum. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að um 5,5 milljónir manna verði send í launalaust leyfi í nóvember.